Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 393/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 393/2021

Fimmtudaginn 4. nóvember 2021

A

gegn

Barnavernd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurðar Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir formaður úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með bréfi 4. ágúst 2021 kærði B lögmaður, f.h.  A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Barnaverndar Reykjavíkur um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Með vísan til 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) fer formaður úrskurðarnefndar velferðarmála ein með málið og kveður upp úrskurð í því. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsþjónustu.

Í gögnum málsins kemur fram að málefni barns kæranda hafi verið til umfjöllunar hjá Barnavernd Reykjavíkur og að barnið hafi verið vistað hjá föður sínum samkvæmt 67. gr. bvl. frá því í júní 2019 til janúar 2021.

B lögmaður sendi Barnavernd Reykjavíkur tölvupóst þann 31. maí 2021 þar sem óskað var eftir styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar á grundvelli 2. mgr. 47. gr. bvl. Jafnframt fylgdi tímaskýrsla með þar sem upplýst var um 18,45 klst. vinnu á tímagjaldi kr. 19.000 vegna vinnu frá 2. október 2019 til 17. nóvember 2020.

Erindi kæranda var svohljóðandi:

„Með vísan til Reglna barnaverndarnefndar Reykjavíkurborgar um fjárstyrki til greiðslu lögmannsaðstoðar skv. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sendi ég þér meðfylgjandi tímaskýrslu mína og óska eftir því að A verði veittur fjárstyrkur sem nemur þeim tímafjölda sem þar er tilgreindur og tekið mið af því tímagjaldi sem í gildi er, kr. 19.000,-

C var með málið fyrir hönd Barnaverndar og hef ég verið í samskiptum við hana vegna þess. Það er kannski rétt að geta þess að þetta mál var nokkuð sérstakt en barnið var vistað utan heimilis hjá umbj. mínum þar sem hann er faðir hennar en var ekki með lögheimili barnsins. Það fóru mjög mikil samskipti í málið og það tekur yfir ansi langt tímabil. Sjálfsagt að gefa nánari útskýringar á tímaskýrslu ef þess er óskað.“

Ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur um að synja kæranda um fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. júlí 2021.

Þann 5. ágúst 2021 óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur sem barst með bréfi, dags. 2. september 2021. Framangreind greinargerð var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. september 2021. Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefnd með bréfi, dags. 21. september 2021, voru þær sendar Barnavernd Reykjavíkur til kynningar með bréfi, dags. 28. september 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé synjun Barnaverndar Reykjavíkur um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna barnaverndarmáls varðandi barn kæranda.

Með bréfi, dags. 7. júlí 2021, tilkynnti Barnavernd Reykjavíkur kæranda um þá ákvörðun sína að synja um styrkveitingu vegna greiðslu lögmannsaðstoðar. Kærandi krefst þess að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og staðfest verði að greiða umræddan fjárstyrk með hliðsjón af tímaskýrslu, þ.e. 18,45 klst., sem lögð hafi verið fram með styrkbeiðni, sbr. 2. mgr. 47. gr. bvl.

Styrkveitingu hafi verið hafnað þar sem Barnavernd Reykjavíkur taldi skilyrði 2. mgr. 47. gr. bvl. ekki vera fyrir hendi. Á þetta verði ekki fallist. Í fyrsta lagi taldi barnavernd að málið uppfyllti ekki skilyrði til styrkveitingar þar sem það hafi ekki verið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur á þeim tíma er vinna lögmanns fór fram í málinu. Málið hafi þó verið í málsmeðferð hjá barnavernd á umræddu tímabili. Samkvæmt 5. mgr. 21. gr. bvl. teljist mál vera barnaverndarmál þegar barnaverndarnefnd hafi tekið formlega ákvörðun um að hefja könnun. Af 12. gr., sbr. 1. gr., reglna um könnun og meðferð einstakra barnaverndarmála eða málaflokka hjá starfsmönnum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, samþykktar 11. desember 2012, leiði að starfsmenn barnaverndar taki ákvörðun um að hefja könnun máls. Eru reglurnar settar á grundvelli 3. mgr. 14. gr. bvl. Ljóst sé því að mál barnsins teljist vera barnaverndarmál. 

 

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur samþykkti reglur um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 47. gr. bvl., þann 19. febrúar 2019. Í 1. gr. reglnanna kemur fram að barnaverndarnefnd veitir fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð. Í máli barnsins, sem hér um ræði, samþykktu bæði móðir og faðir tillögur barnaverndar um að vista barnið utan heimilis í umsjá föður, sbr. 1. mgr. 25. gr. bvl. Ekki hafi því þurft að taka til úrræða 27. gr. bvl. og úrskurða sérstaklega um vistun barnsins gegn vilja foreldra. Kærandi telji það ekki eiga að koma niður á hagsmunum barnsins að foreldrar hafi verið samvinnuþýðir í þessu máli, en með því að neita kæranda um greiðslu lögmannskostnaðar sé vegið að hagsmunum barnsins.

 

Í skýrslu, ritaðri vegna meðferðarfundar þann 2. nóvember 2020, komi fram að ef móðir yrði ekki til samvinnu myndu málefni barnsins verða lögð fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur með tillögu um að úrskurðað yrði um vistun þess utan heimilis. Kærandi telur það verulega miður að lögmannskostnaður sá sem hann taldi mikilvægt að njóta á meðan mál barnsins fór fyrir Barnavernd Reykjavíkur fáist ekki greiddur einungis vegna þess að hann og barnsmóðir hans hafi verið samvinnuþýð og samþykktu ráðstöfun barnaverndar. Óháð því hvort málinu hafi verið lokið með úrskurði eða annars konar ákvörðun þá var málsmeðferð þung og hagsmunir í málinu miklir. Taldi kærandi því gríðarlega mikilvægt að fá aðstoð lögmanns er málið var í meðferð hjá barnaverndarnefnd.

 

Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki getað vitað á þeim tímapunkti er hann leitaði aðstoðar lögmanns hvort málinu yrði lokið með ákvörðun barnaverndar eða úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Það sé bagaleg staða fyrir málsaðila að geta ekki vitað hver réttur þeirra til styrkveitingar sé áður en þeir leita til lögmanns.

 

Þá hafi verið synjað um styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar sökum þess að starfsmenn óskuðu ekki eftir aðkomu lögmanns fyrir kæranda. Af fyrrgreindri skýrslu sé þó ljóst að slíkt hafi verið gert fyrir móður barnsins þar sem fram komi að móður hafi verið kynntur réttur til lögmannsaðstoðar. Kærandi fær ekki skilið hvers vegna óskað hafi verið eftir aðkomu lögmanns fyrir móður en ekki hann sjálfan. Þrátt fyrir að lagt hafi verið til að barnið yrði áfram vistað utan heimilis í umsjá föður getur kærandi með engu móti séð hvers vegna hann hafi ekki verið talinn þurfa á aðstoð lögmanns að halda, líkt og barnsmóðir hans. Um sé að ræða hagsmuni barns þeirra, sem hann hafi eindregið í fyrirrúmi, og telur hann það skapa ójafna stöðu á milli aðila ef einungis annar þeirra nýtur lögmannsaðstoðar en ekki hinn. Mál þetta hafi verið umfangsmikið frá upphafi og erfitt viðureignar vegna aðstæðna. Að mati kæranda hafi verið óhjákvæmilegt að leita aðstoðar lögmanns með tilliti til hagsmuna barnsins og hvað barninu væri fyrir bestu. Það sé engum hulið að kostnaður af lögmannsþjónustu getur mörgum reynst þungur. Með hliðsjón af jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins telur kærandi að með því að móður hafi verið boðin lögmannsaðstoð, hafi hann átt rétt á því líka til þess að standa ekki hallari fæti. Kærandi eigi því jafn mikinn rétt til stuðnings vegna málsins líkt og móðir barnsins.

 

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála leggi það fyrir Barnavernd Reykjavíkur að greiða reikning samkvæmt meðfylgjandi vinnuskýrslu lögmannsins.

III.  Sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur kemur fram að synjað hafi verið um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 47. gr. bvl. Um sé að ræða barn sem lýtur sameiginlegri forsjá beggja forelda og sé með lögheimili hjá móður. Mál barnsins hófst hjá Barnavernd Reykjavíkur í nóvember 2018 eftir að tilkynning barst um að móðir væri fallin í neyslu vímuefna.

Barnið hafi verið vistað utan heimilis samkvæmt 67. gr. bvl. hjá föður vegna vímuefnavanda móður frá júní 2019 til janúar 2021. Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur þann 12. janúar 2021 hafi verið bókað að það væri mat starfsmanna, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, að ekki væri talin ástæða til að vinna lengur að málefnum barnsins á grundvelli barnaverndarlaga. Þá hafði móðir verið að þiggja og nýta þá þjónustu sem henni hafi staðið til boða og ekki hafi verið lengur grunur um neyslu móður. Máli barnsins hafi verið lokað með lokabréfi eftir meðferðarvinnu til forsjáraðila þann 15. janúar 2021.

Barnavernd Reykjavíkur barst tölvupóstur frá lögmanni föður þann 31. maí 2021 ásamt tímaskýrslu þar sem óskað hafi verið eftir fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna máls barnsins hjá Barnavernd Reykjavíkur. Samkvæmt tímaskýrslu lögmanns hafi vinnuframlag á tímabilinu 2. október 2019 til 17. nóvember 2020, verið samtals 18,45 klst. Var lögmanni föður svarað með bréfi, dags. 7. júlí 2021, þar sem synjað var um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar með vísan til þess að málið hafi ekki verið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur og að starfsmenn hafi ekki óskað eftir aðkomu lögmanns föður við vinnslu málsins. Vísað var til þess að skilyrði 2. mgr. 47. gr. bvl. hafi ekki verið fyrir hendi og styrkveitingu því synjað.

Í kæru sé greint frá því að ekki sé fallist á það að styrkveitingu sé hafnað þar sem skilyrði 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga sé ekki uppfyllt. Vísað sé til þess að samkvæmt 5. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga teljist mál vera barnaverndarmál þegar barnaverndarnefnd hafi tekið formlega ákvörðun um að hefja könnun. Lögmaður föður vísaði einnig til þess að í bókun á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur hafi verið vísað til þess að yrði móðir ekki samþykk tillögum starfsmanna yrði málefni barnsins lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur og móður kynntur réttur sinn til lögmannsaðstoðar.

Samkvæmt 5. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga kemur fram að mál telst barnaverndarmál þegar barnaverndarnefnd hefur tekið formlega ákvörðun um að hefja könnun. Samkvæmt 1. gr. málsmeðferðarreglna Barnaverndar Reykjavíkur, sem settar eru á grundvelli 3. mgr. 14. gr. bvl., sé starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur falið umboð til könnunar, meðferðar og ákvarðanatöku í einstökum barnaverndarmálum eða málaflokkum að undanskildum þeim ákvörðunum sem óheimilt er samkvæmt ákvæðum bvl. að framselja til starfsmanna.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur samþykkti reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar þann 19. febrúar 2019. Eiga þær reglur sér lagastoð í 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga þar sem kveðið sé á um að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni sem aðila máls, fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð eftir reglum sem nefndin setji. Í 1. gr. þeirra reglna kemur eftirfarandi fram:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur veitir foreldrum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, sbr. 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.  Eftir atvikum er jafnframt veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Ekki er veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns. Ekki er veittur styrkur vegna kostnaðar vegna ferðalaga og/eða ferðatíma lögmanna á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur nema sérstaklega sé um annað samið.

Það komi skýrt fram í reglunum að ekki sé veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanna. Hér sé ekki verið að ræða um fundi með barnaverndarnefnd heldur aðra þá fundi sem haldnir eru út af málum sem eru til vinnslu hjá Barnavernd Reykjavík.

Í umræddu máli hafi barnið verið vistað af heimili móður og hjá föður og því hafi málsmeðferðin verið sérstaklega íþyngjandi fyrir móður. Á meðan vistun barnsins stóð yfir hjá kæranda fékk hann greiddar meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Í bókun meðferðarfundar starfsmanna barnaverndar sem lögmaður kæranda vísar í, dags. 2. nóvember 2020, kom fram að ef móðir myndi ekki samþykkja tillögur starfsmanna yrði málið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur og henni kynntur réttur sinn til lögmannsaðstoðar. Móðir var hins vegar til samvinnu og því fór málið ekki fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur eins og skilyrði er um til þess að foreldrar geti fengið styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 1. gr. reglna um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar.

Í framangreindri 1. gr. tilvísaðra reglna komi fram að veita skuli fjárstyrk vegna málsmeðferðar fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur áður en nefndin kveði upp úrskurð. Veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum. Í þessu máli var aldrei óskað eftir aðkomu lögmanns fyrir föður heldur var það val kæranda. Barnið var vistað utan heimilis, hjá föður, með samþykki beggja foreldra. Það var mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að beiðni föður um styrkveitingu uppfyllti ekki skilyrði 1. gr. nefndra reglna. Var því beiðni föður um styrk vegna lögmannskostnaðar á grundvelli 2. mgr. 47. gr. bvl. synjað og töldu starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur að það væri ljóst að faðirinn ætti ekki rétt á styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar á grundvelli 2. mgr. 47. gr. bvl. eins og lögmaður föður haldi fram í kæru sinni til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með vísan til framangreinds og þeirra gagna sem fram koma í málinu er þess krafist að hin kærða ákvörðun sem kynnt var með bréfi, dags. 7. júlí 2021, verði staðfest af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að greiddur verði styrkur vegna aðstoðar lögmanns á grundvelli 47. gr. bvl. vegna meðferðar máls hjá Barnavernd Reykjavíkur.

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. bvl. skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. eftir reglum sem nefndin setur. Þá segir í lagaákvæðinu að í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins.

Barnavernd Reykjavíkur samþykkti þann 19. febrúar 2019 reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar, sbr. 47. gr. bvl.

Í 1. gr. reglna Barnaverndarnefndar Reykjavíkur segir:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur veitir foreldrum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, sbr. 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Eftir atvikum er jafnframt veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Ekki er veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns. Ekki er veittur styrkur vegna kostnaðar vegna ferðalaga og/eða ferðatíma lögmanns á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur nema sérstaklega sé um annað samið.“

Kærandi óskaði eftir fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar með tölvupósti þann 31. maí 2021. Af hálfu kæranda var lögð fram tímaskýrsla lögmanns sem kvað á um 18,45 klst. vegna tíma sem unnir voru á tímabilinu 2. október 2019 til og með 17. nóvember 2020. Óskað var eftir því að tekið yrði mið af tímagjaldi sem í gildi sé, 19.000 kr.

Með bréfi, dags. 7. júlí 2021, synjaði Barnavernd Reykjavíkur kæranda um styrk vegna lögmannskostnaðar vegna vinnu B lögmanns fyrir kæranda frá 2. október 2019 til 17. nóvember 2020, samtals 18,45 klst. Í bréfinu var vísað til þess að málið hafi ekki verið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur og að starfsmenn barnaverndar hafi ekki óskað eftir aðkomu lögmanns kæranda við vinnslu málsins.

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd veita foreldrum og barni sem er aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð vegna andmælaréttar samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð. Eins og að framan er lýst sneri hvorki málsmeðferðin né efni málsins að þeirri úrlausn sem barnaverndarnefndin skyldi kveða upp úrskurð um samkvæmt lögum, málið var leyst áður en til þess kom.

Með hliðsjón af framangreindu verður því hvorki fallist á að mál kæranda hafi verið til meðferðar á grundvelli þess að kveða þyrfti upp úrskurð í því hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur né að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi óskað eftir viðveru lögmanns.

Ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur um synjun á greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 7. júlí 2021, í máli A, um að synja kæranda um fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar, er staðfest.

 

Guðrún Agnes Þorsteindóttur formaður

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum